18 sep. 2004Stuðningur við landsliðið í leiknum á morgun skiptir höfuðmáli. Nokkrir af helstu stuðningsmönnum félaga í Intersport-deildinni hafa tekið sig saman og ætla, ásamt trommusveit Keflavíkinga, að halda uppi fjörinu á landsleiknum við Rúmena á morgun. Forsprakki stuðningssveitarinnar er enginn annar en "Torfi bróðir" úr Stykkishólmi. Torfi vakti landsathygli sl. vor með framgöngu sinni með skeifuna góða á leikjum Snæfells-liðsins. Torfi, sem er bróðir Hlyns Bæringssonar landsliðmanns, lætur ekki sitt eftir liggja á leikjum og lætur heyra vel í sér og hvetur aðra áhorfendur óspart til að gera slíkt hið sama. Þess má geta að Torfi var mættur í Velby Risskov-höllina í Århus sl. föstudagskvöld til að hvetja íslenska liðið til dáða. Að sögn Torfa er meiningin að skapa skemmtilega stemmningu og hvetja íslenska liðið til dáða í þessum mikilvæga leik. Torfi sagðist einnig vonast til þess að húsfyllir yrði í Keflavík og áhorfendur tækju vel undir með stuðningsmannasveitinni. Forsala aðgöngumiða á leikinn er á Select-stöðvunum við Birkimel og Vesturlandsveg, sem og í íþróttahúsinu í Keflavík. Verð miða í forsölu er 500 kr. fyrir börn og 1.000 kr. fyrir fullorðna. Verðið á leikdag er 1.500 kr. fyrir fullorðna og 700 kr. fyrir börn. Á leikdag er miðasalan í íþróttahúsinu í Keflavík. mt: Torfi bróðir með lukkuskeifuna góðu á heimaleik hjá Snæfelli sl. vor.